Á sveitarstjórnarfundi þann 11. febrúar 1911 lagði sr. Bjarni Þorsteinsson til að stofnað yrði lestrarfélag og vísir lagður að bókasafni í þorpinu. Það var samþykkt og fundurinn kaus sr. Bjarna, Jón Guðmundsson verslunarstjóra og Sigurð H. Sigurðsson kaupmann í sérstaka undirbúningsnefnd.
Erfitt reyndist að afla fjár til bókakaupa, en 70 kr. styrkur mun hafa fengist úr landssjóði, kr. 150 úr hreppssjóði og kr. 25 úr sýslusjóði árið 1913 til verksins. Fyrstu bækurnar munu þó ekki hafa verið keyptar fyrr en árið 1915 og ári síðar komu þær tilbúnar frá bókbindara. Safnið taldi þá u.þ.b. 100 bindi og var komið fyrir í barnaskólahúsinu og skyldu útlán hefjast þ. 20. febrúar það ár.
Þrátt fyrir að safnið væri ekki stórt í sniðum þótti ástæða til að ráða sérstakan bókavörð og var Hannes Jónasson bóksali valinn til starfans, en hann var gagnfræðingur útskrifaður frá Möðruvallaskóla og að sögn ákaflega vel lesinn maður. Árið 1920 var lestrarfélaginu slitið og bærinn eignaðist safnið.
Vegna plássleysis í barnaskólanum, m.a. vegna gríðarlega mikillar fjölgunar nemenda í ört stækkandi bæ, flutti bókavörðurinn Hannes Jónasson safnið heim til sín, en hann hafði þá nýverið byggt sér stórt hús við Norðurgötu númer 9. Þar var það til húsa fram til ársins 1925, en fékk þá inni í herbergi í Íslandsfélagshúsinu (Rauðu Myllunni) að Eyrargötu 5, en það var þá í eigu bindindisfélaganna í bænum.
1934 var safnið flutt á kirkjuloftið og var þar til húsa þar til það var flutt að Aðalgötu 25 um haustið 1937. Árið 1938 hljóp á snærið hjá siglfirskum bókaormum þegar bæjarstjórnin samþykkti að kaupa safn Guðmundar Davíðssonar á Hraunum, en það taldi alls 5.300 bækur og kaupverðið mun hafa verið 5.500 krónur sem voru hreint ekki svo litlir peningar á þá daga. Árið 1939 varð að flytja safnið aftur, sennilega vegna plássleysis og nú var því komið fyrir í nýbyggðu húsi að Eyrargötu 3.
Eftir að síðari heimsstyrjöldin hófst og með vaxandi dýrtíð var fyrst farið að taka gjald fyrir útlán á bókum safnsins. Árið 1944 var fyrst farið að ræða um byggingu ráðhúss á núverandi stað og var þá bókasafninu strax ætluð heil hæð. Aðdragandinn að því varð þó lengri en í fyrstu var ætlað og 1947 flutti safnið aftur í Aðalgötu 25.
Í júní 1954 fékk bókasafnsstjórnin tilboð um að selja eða skipta út nokkrum gömlum guðsorðabókum og þar á meðal fyrstu útgáfu Passíusálmanna. Safnstjórnin þáverandi tók sér góðan tíma til athugunar málsins, sennilega m.a. vegna mjög þröngra fjárráða safnsins á þeim tíma, var tilboði þessu hafnað.
Framkvæmdir við núverandi húsnæði hófust í ágústmánuði 1961 og safnið flutti þar inn 1964 þar sem það er enn þá.
Bókasafnið á Siglufirði flyst að Gránugötu 24 árið 1961